Innlent

Frost í nótt en 20 stig í vikunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það frysti á Þingvöllum í nótt
Það frysti á Þingvöllum í nótt Vísir/Pjetur
Þó svo að það hafi fryst sums staðar lítillega í innsveitum í nótt þá geta Íslendingar gert ráð fyrir allt að 20 stiga hita í vikunni. Fram kemur á vef Veðurstofunnar að mest hafi frostið orðið 0.9 stig í Húsafelli og á Þingvöllum hafi hitinn farið niður í frostmark.

Veðurstofan á ekki von á því að það frysti aftur næstu nótt - „norðanáttin er að mestu gengin niður og bíða okkar nú nokkrir tiltölulega hlýir og sólríkir dagar þar sem hægviðrið verður ríkjandi að mestu,“ segir veðurfræðingur.

Ef allt gengur eftir gæti hámarkshiti þó náð 20 stigum í vikunni.

Gert er ráð fyrir fremur hægri norðlægri átt eða hafgolfu en norðvestan 5 til 13 metrum á sekúndu úti við norðausturströndina fram yfir hádegi. Skýjað á köflum austantil á landinu og sums staðar rigning öðru hverju á norðausturhorninu.

Víða verður léttskýjað annars staðar og hiti 8 til 18 stig að deginum, hlýjast sunnanlands.

Þá er gert ráð fyrir 3 til 10 metrum á sekúndu á morgun og skýjað með köflum sunnan- og vestanlands, en bjartviðri í öðrum landshlutum. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðanlands. Nánar á veðurvef Vísis.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Austan kaldi með suðurströndinni á köflum, annars hægviðri. Bjart víðast hvar og hiti 8 til 18 stig, svalast austast.

Á föstudag:

Hægur vindur og bjart með köflum austantil á landinu, en þykknar upp við suðaustan golu eða kalda um landið vestanvert, og dálítil væta seinnipartinn. Hiti 7 til 15 stig.

Á laugardag:

Suðaustan 5-13 m/s og rigning, einkum sunnantil, en norðaustlægari átt norðvestanlands. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:

Ákveðin austanátt með rigningu sunnan- og austanlands, en norðlægari átt og úrkomulítið um landið vestanvert. Hiti 8 til 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×