Innlent

Óásættanlegt að tölur um sjálfsvíg liggi ekki fyrir

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýnir embætti landlæknis fyrir að hafa ekki á reiðum höndum töfræði yfir fjölda sjálfsvíga á heilbrigðisstofnunum. Hún fagnar yfirlýsingum heilbrigðisráðherra um nýtt og betra regluverk um verkferla en undrast að ekki hafi verið ráðist í slíkt fyrr.

Síðustu vikuna hefur fréttastofa fjallað um sjálfsvíg ungs manns á geðdeild Landspítala og hafa aðstandendur annarra stigið fram og lýst sambærilegri reynslu.

Fréttastofa hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum frá Embætti landlæknis um fjölda sjálfsvíga á heilbrigðisstofnunum landsins en án árangurs.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, skrifar grein á Vísi sem ber heitið Sjálfsvíg á stofnunum enn í myrkrinu. Þar segir hún lagaumhverfi gera ráð fyrir að óvænt dauðsföll innan heilbrigðisstofnana séu tilkynnt til lögreglu og landlæknis og undrast hún að ekki sé hægt að fletta upp í skráningarkerfi landlæknis fjölda sjálfsvíga.

Rétt á að vita umfang vandans

Þórhildur segir að rót vandans sé falin á meðan fólk er ómeðvitað um stærð og umfang vandans, án upplýsinga og yfirsýnar. Fjölmiðlar og almenningur eigi rétt á að vita umfang vandans og svar landlæknis um að það feli í sér of mikla vinnu að taka saman gögn um fjölda sjálfsvíga á stofnunum - sé óásættanlegt. Því hefur þingmaðurinn sett saman skriflega fyrirspurn til heilbrigðisráðherra þar sem þessara upplýsinga er óskað.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 á dögunum var rætt við Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra sem lýsti því yfir að unnið verði að nýju og betra regluverki um verkferla í málum. Þingmaður Pírata segir yfirlýsingu ráðherra lofa góðu en veki upp spurningar um hvers vegna ekki hafi verið ráðist í aðgerðir strax þegar skýrsla starfshóps um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu lá fyrir í september 2015.

Þar hafi komið fram að það vanti skýra verkferla í málum sem þessum og það vanti sameiginlegan gagnagrunn sem haldi utan um atvikin. Þingmaðurinn segir velferðarnefnd muni fjalla um þetta málefni á næstu vikum og leitast verði eftir að fá svör við ofangreindum spurningum.


Tengdar fréttir

Landspítali mun rannsaka sjálfsvíg

Af hálfu Landspítalans mun fara fram ítarleg skoðun á atvikum málsins þegar ungur maður svipti sig lífi á geðdeild Landspítala aðfaranótt 11. ágúst.

Verklag eftir alvarleg atvik verði skýrara

Heilbrigðisráðherra ætlar í haust að leggja fram tvö frumvörp sem eiga að skýra viðbrögð og verklag á sjúkrastofnunum þegar alvarleg atvik koma upp. Hann segir nauðsynlegt að læra af reynslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×