Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Ræð engu um það hvort ég verði áfram með liðið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gunnlaugur Jónsson segir að Skagamenn muni ekki gefast upp þrátt fyrir erfiða stöðu í Pepsi-deildinni.
Gunnlaugur Jónsson segir að Skagamenn muni ekki gefast upp þrátt fyrir erfiða stöðu í Pepsi-deildinni. vísir/ernir
„Það eru rosalega þung skref hjá okkur eftir þennan leik,“ segir Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, eftir tapið í kvöld. ÍA tapaði fyrir ÍBV, 1-0, í 16. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Liðið er í mjög vondum málum í deildinni.

„Við reyndum hvað við gátum í seinni hálfleik til að koma inn marki en því miður þá vildi boltinn ekki inn. Þetta er því niðurstaðan sem eru gríðarleg vonbrigði.“

Hann segir að Skagamenn hafi lagt allt í sölurnar undir lokin þar sem þeir hefðu engu að tapa.

„Við fengum nægilega mörg föst leikatriði til að gera betur en við gerðum í dag.“

Gunnlaugur var ekki sáttur við það hvernig menn mættu til leiks.

„Við fórum vel yfir það í hálfleiknum og ég var ekki sáttur með það hvernig holningin á liðinu var í byrjun leiks.“

Skagamenn eru núna sex stigum frá næsta liði á botni deildarinnar þegar sex leikir eru eftir. Gunnlaugur fékk þá spurningu hvort hann gæti haldið liðinu uppi.

„Ég tel mig vera sá maður sem getur snúið þessu gengi við og það er búið að reyna ýmislegt síðustu vikur. En ég ræð engu um það hvort ég verði áfram eða ekki. Ég mun leggja mitt af mörkum en auðvitað er þetta gríðarlega erfitt þegar hvert tapið kemur á fætur öðru.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×