Innlent

Eftirför á Reykjanesi: Rannsóknarlögreglumaður segir lögreglu og almenning hafa verið í hættu

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir og Jóhann K. Jóhannsson skrifa
Ólafur Örvar Ólafsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að fólk hafi verið í mikilli hættu þegar bíl var veitt eftirför á Reykjanesbraut í kvöld. Eftirförin endaði með því að bíllinn keyrði á byggingu Keflavíkurflugvallar. Bílnum var ekið í gegnum hindrunarslá og rúður brotnuðu í flugstöðvarbyggingunni. Mikil mildi þykir að enginn hafi slasast.

Ólafur segir í samtali við fréttastofu að tilkynning hafi borist um glæfraakstur frá Reykjavík í átt að Reykjanesi. Lögregla hafði þá ekki upplýsingar um einstaklinginn sjálfan. Lögreglan mætti manninum á Reykjanesbraut við Grindavíkurafleggjarann á 150 km hraða.

„Við mætum honum á Reykjanesbraut á 150 og hefjum eftirför. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Ekur sem leið  liggur í átt að Reykjanesbæ. Þar kemur inn í radar mótorhjól hjá okkur og leggur líka af stað í eftirför. Á þessum tímapunkti þá er eitt mótorhjól og tvær lögreglubifreiðar að elta hann og hann sinnir ekki stöðvunarmerkjum heldur ekur sem leið liggur í átt að flugstöð Leifs Eiríkssonar,“ segir Ólafur.

Lögreglubifreiðarnar reyndu að aka í veg fyrir bílinn til að stöðva hann ásamt því að reyna að þvinga hann af veginum. Það gekk ekki og áfram ók ökumaðurinn í átt að flugvellinum. Þegar bifreið mannsins var orðin óökuhæf stökk hann út úr bílnum og reif konu úr annarri bifreið sem hann síðan ók í átt að flugstöðinni.

Ökumaðurinn ók á ógnarhraða að flugstöðinni, meðal annars á göngustíg, og ók meðal annars niður hindrunarslá. Ólafur segir gangandi vegfarendur hafa verið í talsverðri hættu þegar þangað var komið. Ökumaðurinn á þá að hafa kastað sér út úr bílnum þegar hann nálgaðist nýja anddyri flugstöðvarinnar. Bíllinn hafnaði á inngangi byggingarinnar, við komusalinn. Ekki er vitað hvers vegna maðurinn hegðaði sér svona en að sögn Ólafs hefur maðurinn komið við sögu lögreglu áður.

Ólafur segir að lögreglumenn hafi verið í hættu við eftirförina og að einn hafi orðið fyrir meiðslum, sá sem var kýldur. Maðurinn verður yfirheyrður á morgun vegna ástands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×