Erlent

Fleiri ungmennum kastað í sjóinn við strendur Jemen

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmaður Flóttamannastofnunarinnar annast lík sem rak á land í Jemen.
Starfsmaður Flóttamannastofnunarinnar annast lík sem rak á land í Jemen. Vísir/IOM
Minnst nítján eru látnir eftir að smyglarar köstuðu flótta- og farandfólki í sjóinn undan ströndum Jemen. Þetta er í annað sinn sem þetta er gert á tveimur dögum og óttast Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (IOM) að fleiri slík atvik muni koma upp. Um 180 manns var kastað frá borði að þessu sinni og talið er að um ungmenni frá Sómalíu og Eþíópíu hafi verið að ræða, eins og í gær þegar 120 var kastað frá borði.

„Smyglarar vita að það sem þeir eru að gera er hættulegt fyrir þá og það gæti verið skotið á þá, svo þeir kasta fólkinu frá borði við ströndina,“ segir talsmaður Flóttamannastofnunarinnar við BBC.



Enn er ekki vitað hve margir eru látnir, en talið er að minnst nítján hafi drukknað í dag og allt að fimmtíu í gær.



Ungmennin vonuðust til þess að komast til annarra landa í Mið-Austurlöndum í gegnum hið stríðshrjáða Jemen.

Talið er að um 55 þúsund manns hafi ferðast frá suðurhluta Afríku í gegnum Sómalíu og til Jemen á þessu ári og að rúmlega helmingur þeirra sé undir 18 ára að aldri. Þúsundir aðrir reyna að komast til Evrópu í gegnum Líbýu og yfir Miðjarðarhafið.

Yfirlýsing frá yfirmanni Flóttamannastofnunarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×