Viðskipti innlent

66°Norður opnar verslun í Illum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr versluninni í Illum.
Úr versluninni í Illum. 66°Norður

66°Norður opnaði á dögunum nýja verslun eða svokallaða „shop-in-shop“ í dönsku versluninni Illum í Kaupmannahöfn sem flestir Íslendingar ættu að kannast við. Árið 2013 festi ítalska fyrirtækið La Rinascente kaup á Illum og hefur undanfarin ár lagt mikið fjármagn í að endurbæta útlit og skipulag versluninarinnar segir í tilkynningu frá 66°Norður.

Verslun 66°Norður í Illum er þriðja verslun fyrirtækisins í Kaupmannahöfn, en fyrir rekur það verslanir á Østergarde 6 á Strikinu og á Sværtegade 12 sem einnig er í miðbænum. Einnig má finna vörur merkisins í Magasin du Nord, í Illums Bolighus og síðar í haust verða vörur einnig fáanlegar í verslunum Samsøe & Samsøe.

„Illum leggur mikinn metnað í að bjóða upp á sterk og vönduð vörumerki og er það því mikill heiður fyrir 66°Norður að vera eitt af þeim merkjum sem verslunin teflir fram. Við finnum fyrir miklum meðbyr í Danmörku og áhugi á vörumerkinu er stöðugt að aukast og ekki síst fyrir tæknilegum fatnaði sem hannaður er fyrir daglega notkun í borginni. Danir hjóla og ganga mikið í og úr vinnu og því teljum við fatnað okkar henta danska markaðinum gríðarlega vel líkt og þeim íslenska. Við erum því ánægð að geta styrkt stöðu okkar enn frekar á markaðinum með þessari opnun,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður.
Fleiri fréttir

Sjá meira