Viðskipti innlent

Forstjórinn og fjármálastjórinn keyptu fyrir 18 milljónir 

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Björgólfur Jóhanns­son, forstjóri Icelandair Group
Björgólfur Jóhanns­son, forstjóri Icelandair Group

Forstjóri og fjármálastjóri Icelandair Group keyptu í gær hlutabréf í félaginu fyrir tæpar átján milljónir króna. Forstjórinn, Björgólfur Jóhannsson, keypti 500 þúsund hluti á genginu 14,33 krónur á hlut og nam kaupverðið þannig 7,2 milljónum króna, og Bogi Nils Bogason fjármálastjóri keypti 750 þúsund hluti á genginu 14,1. Nam kaupverðið því 10,6 milljónum króna.

Hlutabréf í Icelandair ruku upp um 6,7 prósent í verði, í 1,2 milljarða króna í viðskiptum í gær, en mesta hækkunin kom til eftir að tilkynnt var um umrædd kaup Björgólfs og Boga.
Eftir kaupin á forstjórinn 1,9 milljón hluti í Icelandair Group að virði 27,4 milljónir króna og fjármálastjórinn 1,75 milljón hluti að virði 25,2 milljónir króna, miðað við gengi bréfanna í gær.

Hlutabréf í Icelandair Group hafa lækkað um 35 prósent í verði síðan félagið sendi frá sér svarta afkomuviðvörun í byrjun febrúarmánaðar fyrr á árinu. Samkvæmt henni var gert ráð fyrir að EBITDA-hagnaður Iceland­air – afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir – yrði 140 til 150 milljónir dala og dragast saman um 30 prósent í ár. Hefur afkomuspáin nú verið hækkuð í 150 til 160 milljónir dala. – kij


Tengdar fréttir

Hlutabréf Icelandair lækkað um 40%

Bréfin féllu um 3,3 prósent í verði í rúmlega 560 milljóna króna viðskiptum í gær, en alls hefur gengi bréfanna fallið um tæp sextán prósent síðustu sjö daga.

Icelandair enn í vanda statt

Hlutabréf í Icelandair Group féllu um 7,7 prósent í verði eftir að félagið birti uppgjör fyrir annan fjórðung ársins. Þrátt fyrir tekjuvöxt á milli ára eru enn blikur á lofti. Búast má við aukinni samkeppni.
Fleiri fréttir

Sjá meira