Enski boltinn

Guardiola segir sína menn þurfa að bæta sóknarleikinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guardiola gefur skipanir inn á völlinn í dag.
Guardiola gefur skipanir inn á völlinn í dag. Vísir/Getty

Pep Guardiola var ánægður eftir 2-0 sigur Manchester City á Brighton í lokaleik dagsins í enska boltanum en sagði að sínir menn gætu þrátt fyrir það gert betur í sóknarleiknum.

Það tók gestina frá Manchester 70. mínútur að koma boltanum í netið og brjóta niður nýliðana en stuttu síðar bætti Manchester City við marki og kláraði leikinn. Búið var að dæma tvö mörk af gestunum í upphafi fyrri hálfleiks.

„Það var léttir að ná fyrsta markinu en við fengum fjöldan allra færa fram að því til að skora. Í leikjum gegn liðum sem verjast allir tíu leikmennirnir sem einn þá verður maður að ná fyrsta markinu,“ sagði Guardiola og bætti við:

„Við vorum örlítið hægir í okkar sóknaraðgerðum, við þurfum meiri hraða og ákveðni í sóknarleikinn því við lentum oft í erfiðleikum á útivöllum eins og þessum í fyrra. Okkur gekk vel að loka á þá og ég man bara eftir einu skoti hjá þeim.“

Hann hrósaði vinnusemi sinna manna.

„Við hlaupum á við lið í neðri deildunum þótt að við séum með lið skipað heimsklassamönnum, ég er stoltur af því hvernig allir leggja sig fram í pressunni. Það er fyrsta skrefið í að skapa sóknartækifæri.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira