Tónlist

Maus mun aldrei hætta

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Birgir Örn Steinarsson, Biggi í Maus, en Maus kemur aftur saman á Airwaves.
Birgir Örn Steinarsson, Biggi í Maus, en Maus kemur aftur saman á Airwaves. Vísir/Laufey Elíasdóttir
„Það vill svo til að það eru akkúrat 20 ár síðan platan kom út, mig minnir að hún hafi komið fjórða nóvember og við erum að spila bara nánast upp á dag á Airwaves,“ svarar Birgir Örn Steinarsson, Biggi í Maus, aðspurður hvort það hafi legið lengi fyrir að Maus kæmi aftur saman á Airwaves – en sveitin mun koma aftur saman á hátíðinni í nóvember og spila plötuna Lof mér að falla að þínu eyra, en hún verður 20 ára um þær mundir eins og Biggi segir.

Er þetta þá kannski tilviljun?

„Já og nei, við erum búnir að vera að undirbúa í smá tíma að færa katalóginn okkar í vínyl-útgáfu og við vorum að undirbúa útgáfuna af Lof mér að falla að þínu eyra og þetta hitti svona. Það er búið að vera að biðja okkur um að spila í einhvern tíma en við ákváðum að bíða þangað til platan yrði 20 ára. Nú er komið að því og búið að setja vínyl útgáfuna í pressun og þá sáum við að þetta var allt að hitta á svipaðan tíma og Airwaves. Okkur fannst kjörið að tékka á þeim og þeir tóku bara rosa vel í þetta.“

Þið hafið ekki spilað mikið upp á síðkastið? Eruð þið ekki ískaldir þá?

Nei, við tókum lítinn túr árið 2015, um verslunarmannahelgina. Þá tókum við Reykjavík, Vestmannaeyjar, Akureyri. Þannig að það hefur ekkert verið spilað í tvö ár. Við hittumst ekki og æfum nema eitthvað sé að gerast. En við erum mjög heitir og spenntir fyrir að spila. Við hittumst miklu oftar en við spilum saman. Oftast þegar við hittumst tölum við ekki einu sinni saman um hljómsveitina. Þetta er eins og svona saumaklúbbur, eða kannski frekar bræðralag og það hverfur ekkert. Ef það er eitthvað tilefni til þá eru menn til í að gera eitthvað. En ég held að enginn okkar sé til í að vera starfandi í hljómsveit sem æfir tvisvar í viku.“

Þannig að það þarf engan sálfræðing þegar þið komið saman eins og hjá Metallica?

„Ég sé bara um sálfræðina,“ segir Biggi kíminn, en hann er að klára masternám í sálfræði um þessar mundir, „ég held að þetta sé svona gott hjá okkur af því að við berum nægilega mikla virðingu fyrir hver öðrum og vitum að hugmynd eins manns mun ekki ráða neinu. Þetta er algjört samstarf. Þótt ég komi með FRÁBÆRA hugmynd og sé rosa spenntur, þá er ekkert víst að hún fari í gegn. Þannig að ég reyni það ekki einu sinni og það er eins með strákana. Við þurfuum helst að funda um hlutina þrisvar, fjórum sinnum áður en við gerum þá, þá vitum við allir í hvað átt við erum að fara.

Þetta er algjört fyrirtæki. Við erum fjórir og það eru fjögur atkvæði fyrir allt saman. Það lýsti einhver Maus í gamla daga sem „þrír harðstjórar og einn diplómati“. Palli er diplómatinn og við hinir erum með mjög sterkar hugmyndir um hvað við viljum gera – sem stangast oft á, við höldumst ekkert alltaf í hendur.“

Stendur eitthvað meira til hjá ykkur svona fyrst þið komið út úr fylgsninu með þessa tónleika?

„Ekki eins og er. Við höfum metnað fyrir að færa allan katalóginn yfir á vínyl. En þetta er það eina sem er búið að bóka og plana. Við erum rosalega duglegir við að segja nei. Aðallega út af því að einhver kemst ekki og þannig. Einn er tónskáld á sífelldu flakki, einn er grafískur hönnuður sem er í tveimur böndum og ég er sálfræðinemi sem er að klára master og er að skrifa bíómyndir og hitt og þetta. Enginn okkar mun samt nokkru sinni segja að hljómsveitin sé hætt – meira að segja þegar við fórum í níu ára hlé þá var það bara vegna þess að við vorum aldrei saman á landinu. Þetta þarf að vera eitthvað sem hentar öllum og við náum sameiningu um að gera – en við erum spenntir fyrir Airwaves.“

Biggi segir líklegt að vínylútgáfan af Lof mér að falla að þínu eyra verði fáanleg um Airwaves og það sé ekki ólíklegt að þeir hendi mögulega í útgáfupartí meðfram útgáfunni.

„Við verðum starfandi þessa vikuna, þannig að það er aldrei að vita hvað við gerum. Mér finnst alveg líklegt að við gerum eitthvað, hvort það verði settlegt kokteilboð eða sveittir tónleikar. Það er eitthvað sjarmerandi við það að giggin séu fá og vel valin. Eins og þetta – þessi performans mun fjalla um þessa plötu, það verða gestir og þetta verður mjög gott „show“ og við ætlum að reyna að koma plötunni sem best til skila.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×