Skoðun

Ekkert barn útundan!

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ég þekki sex ára gamla skottu sem fékk sína fyrstu skólatösku um daginn. Hún er svo heppin að hún fékk töskuna sem hana langaði mest í – eða réttara sagt einu töskuna sem hana langaði í eftir að hafa rekið augun í hana í búðinni með mömmu sinni. Nú sefur stelpuskottið með töskuna uppi í rúmi hjá sér og getur varla beðið eftir því að skólinn byrji.

Hjálparstarf kirkjunnar styður heilshugar baráttu Barnaheilla og tekur undir áskorun þeirra til stjórnvalda um að virða réttindi hvers barns til gjaldfrjálsrar grunnskólamenntunar sem og rétt barna á vernd gegn mismunun. Það er mikið gleðiefni hve mörg sveitarfélög í landinu hafa ákveðið að skólar útvegi námsgögn endurgjaldslaust nú í haust.

Það er nefnilega svo að í uppsveiflu í efnahagslífinu situr eftir hópur fólks sem býr við efnislegan skort. Fyrir barnafjölskyldur sem þannig er statt um reynist haustið erfiður tími. Skólataska, pennaveski, íþróttaföt, vetrarfatnaður, skór og stígvél, allt kostar þetta peninga svo ekki sé minnst á útgjöld vegna íþrótta- og tómstundastarfs sem falla til í upphafi skólaárs sem og kostnað vegna námsgagna þar sem enn þarf að greiða fyrir þau.

Auðvitað endurnýtir fólk skóladót og íþróttabúnað frá fyrra ári og yngri börn fá frá þeim eldri en stundum dugar það ekki til og þá eru góð ráð dýr. Foreldrar grunnskólabarna sem búa við kröpp kjör leita um þessar mundir stuðnings hjá Hjálparstarfi kirkjunnar til að geta útbúið börnin í upphafi skólaárs. Í fyrrahaust fengu foreldrar um 200 barna aðstoð hjá Hjálparstarfinu og við búumst við að álíka margar fjölskyldur leiti til okkar nú.

Hjálparstarfið aðstoðar fjölskyldur sem búa við kröpp kjör í upphafi skólaárs því efnaleysi á ekki að hindra börn í námi eða í íþrótta- og frístundastarfi með jafnöldrum sínum. Öll börn eiga að geta hlakkað til að byrja í skóla!

Höfundur er fræðslufulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×