Erlent

Sendiherra segir Finna óttaslegna

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Markaðstorgið þar sem árásin átti sér stað er fjölsóttur og vinsæll staður í miðborg Turku.
Markaðstorgið þar sem árásin átti sér stað er fjölsóttur og vinsæll staður í miðborg Turku. Vísir/AFP
Fimm voru handteknir í Finnlandi í nótt í tengslum við hnífaárás á markaðstogi í borginni í Turku í gær. Sendiherra Íslands í Finnlandi segir hræslu vera meðal almennings í landinu og enginn hafi búist við því á hryðjuverk yrðu framinn á þessum stað.

Árásarmaðurinn gekk inn á Puutori-markaðstogið í suðvesturhluta borgarinnar Turku í Finnlandi klukkan rúmlega fjögur að staðartíma í gær þar sem hann fór á milli fólks og stakk það með hnífi.Tveir finnskir ríkisborgarar létust í árásinni og átta slösuðust þar af tveir Svíar og einn Ítali en lögreglan hefur skilgreint árásina sem hryðjuverk. Árásarmaðurinn er átján ára frá Marokkó og er innflytjandi í landinu en hann náðist skömmu eftir árásina þar sem lögreglumenn skutu hann í fótinn og særðu.

Fimm voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í Finnlandi í gærkvöldi og í nótt í tengslum við árásina en strax var grunur um að fleiri ættu aðild að ódæðinu. Hlutverk þeirra sem handteknir voru í nótt er til rannsóknar en lögregluyfirvöld hafa gefið út að þeir hafi átt og verið í samskiptum við ódæðismanninn.

Sjá einnig: Tveir látnir og átta særðir eftir hnífaárás í Finnlandi

Kristín A. Árnadóttir, sendiherra Íslands í Finnlandi, segir aukinn viðbúnað í landinu og ótta meðal almennings.

„Það er auðvitað skelfing sem einkennir viðbrögðin og fjölmiðlar fjalla mikið um málið. Lögreglan hefur viðbúnaðarstig sitt í öllu landinu þannig að það hefur átt sér stað eitthvað mat á því hvort von sé á fleiri árásum af þessum toga,“ segir Kristín.

Turku í Finnlandi er lítill og friðsæll bær þar sem búa færri en 200 þúsund manns.

„Hann er á stærð við Reykjavík, friðsæl háskólaborg og mikið af ungu fólki. Í raun engin ástæða til að ætla að svona árás eigi sér stað þar frekar en einhvers staðar annars staðar,“ segir Kristín.

Eru í viðbragðsstöðu

Markaðstorgið þar sem árásin átti sér stað er fjölsóttur og vinsæll staður í miðborg Turku. Þar búa þónokkrir Íslendingar en sendráð Íslands hefur ekki upplýsingar um hvort þeir hafi verið nærri þegar árásin átti sér stað.

Hún segist hafa sett sig í samband við ræðismann Íslands í Turku en þau séu ekki að leita fólki upp. Þau vonist heldur til þess að fólk setji sig í samband við þau ef að tilefni er til. „En við erum í viðbraðgsstöðu eins og aðrir,“ segir Kristín.

Kristín segir að lögregluyfirvöld hvetji fólk til þess að forðast fjölmenna staði „Auðvitað verður þetta til þess að allir óttast og það er búið að gefa út hérna í Finnlandi viðvörun um það að fólk sé á fjölmennum stöðum og að það eigi helst að hafa hægt um sig,“ segir Kristín A. Árnadóttir, sendiherra Íslands í Finnlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×