Erlent

Segir af sér í skugga ásakana um ofbeldi gegn konu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mduduzi Manana segir að atvikið sé skammarlegt.
Mduduzi Manana segir að atvikið sé skammarlegt. S.A.G.
Aðstoðarmaður ráðherra æðri menntunar í Suður-Afríku, Mduduzi Manana, segir af sér í skugga ásakana um ofbeldi gegn konu.

Manana hefur verið ákærður fyrir meinta árás og þurfti hann að svara til saka fyrir dómstólum í síðustu viku. Honum er gefið að sök að hafa lamið konu í næturklúbbi að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Embætti forsetans Jacob Zuma sendi frá sér stutta yfirlýsingu en þar segir að afsögnin sé samþykkt en auk þess er Manana þakkað fyrir sitt framlag til ríkisstjórnarstarfsins.

Áður hefur Manana beðist afsökunar á „þessu skammarlega atviki.“ Hann segir að umrædd kona hafi ögrað sér en að hann hefði engu að síður átt að sýna stillingu í þessum aðstæðum.

Þegar ásakanirnar á hendur Manana komu fyrst fram fordæmdu flokksmenn hans ofbeldið: „Slík hegðun er óásættanleg. Ofbeldi gegn konum er skömm okkar tíma.“ 

Í Suður-Afríku reis hneykslunaralda vegna máls Manana en ofbeldi gegn konum algengt í landinu. Þess hefur verið krafist að hann segði af sér.

Skömmu eftir að Manana var handtekinn var hann látinn laus gegn tryggingu á meðan á rannsókn málsins stóð yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×