Lífið

Ágústspá Siggu Kling - Vatnsberinn: Núna er þinn tími endurnýjunar

Elsku hjartans Vatnsberi, þinn helsti galli er að þú reynir að draga alla með þér, þú ert eins og naut með klafa á eftir þér sem fullt af fólki er hangandi í og það þrífst á þinni orku, en með einu handtaki geturðu hent þessum klafa af þér og þá endurnýjast þú og færð kraft til að vera hinn eini sanni Vatnsberi. Þú getur alveg hjálpað öðrum án þess að hafa fólk á herðum þér og þú þarft ekki að hafa móral þó þú passir ekki upp á alla.

Núna er þinn tími endurnýjunar, sjálfstæðis og sálarstyrkingar og þú hefur að eðlisfari svo mikla útgeislun og aðdráttarafl, já, á við hvaða súperstjörnu sem er, en þegar þú ert þreyttur og búinn á því þá sér enginn fallegu orkuna þína og þú kemur engu í framkvæmd.

Þú ert gæddur einstökum hæfileikum til að láta öllum líða vel á heimilinu þínu og gera allt svo dásamlega kósý og þess vegna er það heimilið þitt sem nærir þig og ef þú vilt breyta lífinu hjá þér, byrjaðu þá að breyta heimilinu þínu eða herberginu þínu.

En ekki safna hlutum allt í kringum þig þó að þér finnist þeir færa þér einstakar minningar, því það mun rugla þig í ríminu frá því að hreinsa hugann og þegar þú vaknar þarftu að horfa á eitthvað sem fyllir þig krafti, en dregur ekki úr honum. Það er jafn mikilvægt að breyta orkunni þar sem þú býrð með því að hreinsa út og breyta eins og að klæða sig eftir karakter.

Ég persónulega breyti alltaf á mínu heimili í hverri viku, hreyfi hluti til, það gefur líka orku. Þegar þú ferð inn á heimili þar sem ekkert hefur verið hreyft til og verið eins í mörg, mörg ár, fullt af dóti og minningum, er eins og orkan stöðvist og allir dagar verða eins.

Maður á það til að elska hluti meira en maður þarf. Ég á handmálaða skál, ítalska, með svo ótrúlega fallegu loki og ofan á því er kona sem handfang. Þessi fallega skál kostaði meira en aðra höndina og ég hafði sífellt áhyggjur af því að einhver myndi brjóta handfangið eða konuna af þessu postulíni.

En þegar Stína systir mín kom um daginn rakst hún í skálina, lokið þeyttist af henni og konan eða handfangið brotnaði af. Þá sagði ég við hana: Takk fyrir, nú þarf ég aldrei aftur að hafa áhyggjur af því að einhver brjóti handfangið af skálinni og ég meinti það svo innilega! Hræðslan við það að eitthvað gerist sem hindrar mann er nefnilega verri en hindranirnar sjálfar, svo hættu að vera hræddur.

Þú hefur svo mikinn skilning á furðuverki lífsins og fegurð, svo það er svo sannarlega hægt að segja að þú sért furðuverk og þú ert svo uppfullur af ástríðum á mörgum sviðum og elskar að elska.

Ekki hugsa of langt fram í tímann ef þú ert á lausu, en vertu þó búinn undir að ástin muni heilsa þér og settu tvær sængur í rúmið, eina fyrir þig og eina fyrir ástina, keyptu sæta inniskó sem þú sérð fyrir þér að ástin þín muni ganga í, taktu frá pláss í skápnum fyrir ástina. Og ég er ekki að meina að einhver plastpokapía eða- peyi sé á leiðinni, heldur að þú búir til töfra og gerir pláss í lífi þínu, því töfrar byggjast á því að trúa að hlutirnir verði eins og þú vilt. Þessi tími sem þú ert að fara inn í gefur þér möguleika á að breyta, láta þér líða betur og vera sáttari með allt.

Setningin þín er: Ég er furðuverk (Rut Reginalds)

Frægir Vatnsberar: Pacas hans Begga, Geir Sveinsson handknattleiksþjálfari, Halla himintungl, Clark Gable leikari, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi, Yoko Ono, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Katrín Jakobsdóttir þingkona, Hilmir Snær Guðnason leikari, Rikka sjónvarpskona, María Ólafsdóttir Júróvisjónstjarna, Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kastljóss, Gunna Dís útvarpskona, Höddi Magg, Andrea Róberts mannauður, Hilmar Hafsteinsson ofurfasteignasali, Rut Roberts flugfreyja hjá Icelandair, Ragnheidur Guðfinna sálfræðingur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×