Sport

Sunna: Vonandi fæ ég titilbardaga á næsta ári

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sunna í búrinu í Kansas.
Sunna í búrinu í Kansas. mynd/mjölnir.is/sóllilja baltasarsdóttir
Sunna „Tsunami“ Davíðsdóttir er komin heim eftir enn eina frægðarförina til Kansas City. Að þessu sinni vann hún hina bandarísku Kelly D'Angelo.

Þetta var þriðji atvinnumannabardagi Sunnu hjá Invicta-bardagasambandinu og hún hefur unnið alla bardagana sína. Síðustu tveir bardagar hennar hafa verið valdir bardagi kvöldsins.

Þegar Sunna kom heim var hún með hægri höndina í spelku.

„Ég hef svolítið verið að níðast á henni. Í síðasta bardaga vafði ég ekki hendurnar á mér áður en ég fór inn í búrið. Höndin fór svolítið illa út af því,“ segir Sunna en Gunnar Nelson hefur einnig barist óvafinn í síðustu bardögum.

„Maður er að kýla fast í þunnum hönskum. Ég vafði hendurnar núna en höndin hafði verið slæm í undirbúningnum. Ég fór í röntgen áður en ég fór út og fékk grænt ljós á að keppa. Höndin var sem sagt ekki brotin.“

Með hverjum sigrinum taka fleiri eftir Sunnu sem stefnir á að komast í UFC. Hvað tekur núna við?

„Nú ætla ég aðeins að lenda og njóta með fjölskyldu og vinum. Í ágúst fer ég að æfa aftur. Vinna með sprengikraft og styrk,“ segir Sunna en hvenær telur hún sig eiga möguleika á titilbardaga hjá Invicta?

„Vonandi fæ ég tækifæri til þess á næsta ári. Það er draumurinn. Ég hef verið að stimpla mig inn hjá þeim og sýna þeim að ég eigi heima með þeim bestu. Vonandi sér Invicta að ég á erindi en ég þarf kannski að taka einn til þrjá bardaga áður Svo getur allt gerst. Ef það er titilbardagi og þau vilja fá mig þá er ég tilbúin í slaginn.“

MMA

Tengdar fréttir

Sunna Rannveig sigraði Kelly D'Angelo

Sunna Rannveig Davíðsdóttir vann sinn þriðja bardaga í röð í nótt í Kansas. Sunna sigraði Kelly D'Angelo eftir dómaraákvörðun og átti frábæra frammistöðu.

Ef dyrnar hjá UFC eru opnar fer ég glöð yfir

Sunna Rannveig Davíðsdóttir sigraði Kelly D'Angelo í Kansas á laugardaginn og hefur því unnið alla bardaga sína sem atvinnumaður í MMA. Hún er með markmiðin á hreinu en leyfir sér að njóta augnabliksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×