Erlent

Drápið á Justine Damond: Lögreglustjóri í Minnesota segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Drápið á Justine Damond hefur vakið mikla reiði í heimalandi hennar Ástralíu.
Drápið á Justine Damond hefur vakið mikla reiði í heimalandi hennar Ástralíu. Vísir/afp
Lögreglustjóri í Minnesota í Bandaríkjunum hefur sagt af sér eftir að lögreglumaður skaut óvopnaða ástralska konu til bana í úthverfi Minneapolis-borgar í síðustu viku.

Hin fertuga Justine Damond var þar skotin eftir að hafa hringt í neyðarlínuna til að tilkynna um að hún hafi heyrt í konu öskrandi og sagst telja að nauðgun væri að eiga sér stað í húsasundi nærri heimili hennar.

Lögreglustjórinn Janee Harteau hafði áður sagt að atvikið „hafi ekki átt að eiga sér stað“.

Í frétt BBC kemur fram að borgarstjóri Minneapolis-borgar í Minnesota, Betsy Hodges, segist hafa samþykkt afsögn Harteau enda hafi hún misst tiltrú á störfum lögreglustjórans.

Mikil reiði í Ástralíu

Málið hefur vakið mikla umræðu og reiði í Ástralíu og hefur forsætisráðherrann Malcolm Turnbull lýst því sem „óútskýranlegu“ og sem „hneykslanlegu drápi“.

Justine Damond ásamt unnusta sínum Don.Facebook
Lögregluþjónninn, Mohamed Noor, skaut Damond þegar hún nálgaðist lögreglubílinn sem hann sat í og var hún þá klædd í náttföt. Noor, sem sat í farþegasætinu skaut konuna yfir félaga sinn út um gluggann bílstjóramegin. Noor hefur neitað að ræða við þá sem nú rannsaka atvikið, en reglur kveða á um að yfirvöld geti ekki þvingað hann til þess að gefa skýrslu um atvikið.

Samstarfsfélagi Noor, Matthew Harrity, sagði þó rannsakendum að þeir hefðu heyrt hávær hljóð á sama tíma og Damond gekk að bíl þeirra.

Lögreglan í Minneapolis hefur birt upptökur af talstöðvarsamskiptum lögreglunnar eftir að Damond var skotin. Þar má heyra lögregluþjón segja að svo virðist sem að flugeldar hafi verið sprengdir á svæðinu.

Báðir lögregluþjónarnir voru með slökkt á vestismyndavélum sínum þegar Damond var skotin og einnig var slökkt á myndavélinni í mælaborði bíls þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×