Erlent

Morðin í Gautaborg: Faðirinn grunaður um morð á konu sinni og þremur börnum

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var giftur konunni, sem var 35 ára, og faðir allra barnanna sem voru á aldrinum tveggja til átta ára.
Maðurinn var giftur konunni, sem var 35 ára, og faðir allra barnanna sem voru á aldrinum tveggja til átta ára. Vísir/EPA
Dómstóll í Svíþjóð hefur dæmt 51 árs gamlan karlmann í gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa orðið eiginkonu sinni og þremur börnum að bana í Angered fyrir utan Gautaborg á fimmtudag.

Fólkið fannst eftir að tilkynnt var um eld í íbúðinni. Þar fundust konan og eitt barnanna látin. Hin börnin tvö létust í sjúkrabíl á leiðinni á sjúkrahús og á sjúkrahúsi.

Áverkar fundust á líkum fólksins sem varð til þess að lögreglu grunaði að þau hafi ekki látist í brunanum. Karlmaðurinn, sem er bosnískur ríkisborgari, neitar sök í málinu.

Aftonbladet segir frá því að sama dag og fólkið fannst látið hafi átt að vísa fjölskyldunni úr íbúðinni. Hafi hún verið stórskuldug og ekki greitt leigu af íbúðinni í tvö ár.

Lögmaður mannsins kveðst undrandi á dómnum og segir skjólstæðing sinn hafa greint nákvæmlega frá ferðum sínum umræddan morgun. Kveðst hann hafa verið á vinnustað sínum þegar eldurinn kom upp.

Maðurinn var giftur konunni, sem var 35 ára, og faðir allra barnanna sem voru á aldrinum tveggja til átta ára.

Lögregla færði manninn til yfirheyrslu eftir að sást til hans í grennd við íbúðina á fimmtudagsmorgninum. Var hann upphaflega ekki grunaður um verknaðinn, en eftir því sem rannsókn hefur miðað áfram hafa grunsemdir aukist um að hann hafi banað fjölskyldu sinni og kveikt í.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×