Viðskipti innlent

Telur borgina hafa orðið af 200 milljónum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Lóðin þar sem Íslandshótel hyggst reisa hótel.
Lóðin þar sem Íslandshótel hyggst reisa hótel. vísir/andri marinó
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina telur að Reykjavíkurborg hafi tapað tæplega 200 milljónum króna á því að bíða ekki með að selja fasteignirnar við Laugaveg 4 og 6 og Skólavörðustíg 1a. Fulltrúar meirihluta borgarráðs vísa því á bug.

Borgarráð samþykkti í síðustu viku að selja fasteignina að Vonarstræti 4, ásamt byggingarrétti, til Íslandshótela, en vonir standa til að fasteignin verði hluti af nýju hóteli keðjunnar. Bílastæðasjóður er nú þar til húsa. Var kaupverðið 399,3 milljónir króna.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarráðsfulltrúi Framsóknar, segir að í júlí 2014 hafi borgin selt fasteignir á Laugavegi 4-6 og Skólavörðustíg 2a á 365 milljónir króna. Borgarráðsfulltrúar flokksins hafi þá mótmælt sölunni og sagt verðið of lágt og tímasetninguna ranga, enda væru fyrirséðar miklar hækkanir á fasteignaverði.

Sveinbjörg segir að miðað við verðmatið á Vonarstræti 4 hefði borgin getað fengið 551 milljón króna fyrir fasteignirnar á Laugavegi 4-6 og Skólavörðustíg 2a.

„Tapið af því að fara ekki að tillögu Framsóknar og flugvallarvina um að bíða með sölu á eignunum er því ekki óvarlega áætlað tæplega 200 milljónir,“ segir hún.

Borgarráðsfulltrúar meirihlutans bókuðu á fundinum að byggingarréttur fyrir bakhús og kjallara, þar sem hýsa ætti verslun við Laugaveg, og byggingarréttur fyrir hótel á besta stað við Vonarstræti væri ekki sambærilegt. Fasteignirnar á Laugavegi hefðu verið auglýstar á vegum fasteignasala og í kjölfarið seldar hæstbjóðanda. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×