Skoðun

Hundgá og eignarréttur

Ingimundur Gíslason skrifar
Perúanski hagfræðingurinn Hernando de Soto segir frá því fyrir skömmu í sænska dagblaðinu Dagens Industri þegar hann gekk inni á akurlendi á eyjunni Bali. Á um það bil 300 metra millibili hlupu geltandi hundar að honum og afmörkuðu þannig eignarmörk hverrar spildu akursins fyrir sig. Hið sama upplifðum við sem eldri erum hér áður fyrr.

Þegar við ókum upp í sveit komu hundar hlaupandi niður að hliði á hverjum sveitabæ og geltu ákaflega. Nú á dögum er umferðin orðin það mikil að hundunum finnst ekki taka því að heilsa vegfarendum á þennan hátt. Þarna voru þeir að skilgreina eignarrétt á landi hver með sínum hætti. De Sato segir að á þeim svæðum heimsins, þar sem eignarréttur er vel skilgreindur og varinn með lagasetningu, sé velferð mest á heimsvísu.

Hér á hann við Vesturlönd þar sem búa um tveir milljarðar jarðarbúa. Þar getur fólk verið í viðskiptum án þess að þekkjast. Í hinum hluta heimsins þar sem búa um það bil fimm milljarðar fólks er fátækt og ójöfnuður víða ríkjandi og lýðræði fótum troðið. Þar er samfélagssáttmálinn óskýr og þess vegna geta ólýðræðisleg öfl oft náð undirtökunum með vopnavaldi og mútum.

Það er ekki hægt að veita einhverjum sem er óskráður lán og það er ekki hægt að kaupa fasteign, lausa vöru eða annað nema vera viss um að seljandinn eigi það sem ætlunin er að kaupa. Vandi er að þeir sem vilja sem mestan jöfnuð telja að allt tal um eignarrétt sé bara hægri pólitík. Og þeir hafa ýmislegt til síns máls en De Soto segir að eignarrétturinn sé ávallt grunnurinn en auðvitað þarf meira til.

Réttarkerfi þarf að vera í lagi og löggjöf vera til um fjármálamarkaði svo eitthvað sé talið til. En hvað með þá sem standa höllum fæti í okkar samfélagi? Þeim er oft hægt að hjálpa með lagasetningu og starfsemi hjálparsamtaka. En ekki má gleyma að þeir eiga ekki eingöngu tækifæri til betra lífs sem launþegar. Leiðin í frumkvöðlastarfsemi með eigin atvinnurekstri er oft opin. Stundum til að byrja með í smáum stíl. Til þess að það geti gerst þarf skýr eignarréttur að vera til staðar.

Höfundur er augnlæknir.




Skoðun

Sjá meira


×