Erlent

Þörungar gætu hraðað bráðnun Grænlandsjökuls

Kjartan Kjartansson skrifar
Grænlandsjökull bráðnar nú hratt vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna.
Grænlandsjökull bráðnar nú hratt vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Vísir/AFP
Vísindamenn hafa áhyggjur af því að aukinn vöxtur þörunga á Grænlandsjökli geti hraðað bráðnun hans og þar af leiðandi hækkað yfirborð sjávar meira en spár hafa gert ráð fyrir.

Hlýnandi loftslags hefur hleypt kappi í þörungagróðurinn. Þörungarnir dekkja yfirborð ísþekjunnar sem veldur því að hún drekkur í sig meiri sólargeislun og bráðnar meira en ella.

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að vísindamenn hafi aðeins nýlega beint sjónum sínum að áhrifum þörunganna á bráðnun íssins á Grænlandi þó að öld sé liðin frá því að þeirra varð fyrst vart þar.

Ekki er þannig gert ráð fyrir áhrifum þörunga í spám loftslagsvísindamanna um hækkun yfirborðs sjávar í síðustu skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) árið 2013.

Reyna að átta sig á umfangi bráðnunarinnar

Bráðnun Grænlandsjökuls hækkar nú yfirborð sjávar á heimsvísu um allt að millímetra á ári. Bráðnaði jökullinn allur myndi hann hækka sjávarstöðuna um sjö metra.

„Fólk hefur miklar áhyggjur af möguleikanum á því að íshellan gæti bráðnað hraðar og hraðar í framtíðinni,“ segir Martyn Tranter frá Háskólanum í Bristol sem rannsakar nú þörungana við BBC.

Tranter segist telja að hlýnun jarðar valdi því að þörungarnir sölsi undir sig æ stærri svæði á íshellunni. Það geti hraðað bráðnuninni og hækkun yfirborðs sjávar.

„Verkefni okkar er að reyna að skilja hversu mikli bráðnun gæti átt sér stað,“ segir hann.

Markmiðið er að hægt verði að taka áhrif þörunganna með í reikninginn í tölvulíkönum sem spá fyrir um bráðnun og hækkun yfirborðs sjávar.


Tengdar fréttir

Bráðnun á Grænlandi gæti valdið þurrki í Afríku

Ferskvatn úr bráðnandi Grænlandsjökli gæti raksað hafstraumum og breytt veðurfari á viðkvæmu svæði í Afríku. Þurrkur og uppskerubrestur gæti valdið hörmungum fyrir milljónir manna þar samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.

Yfirborð sjávar hækkar hraðar

Bráðnun Grænlandsjökuls og annarra jökla á landi vegna hnattrænnar hlýnunar hefur stuðlað að því að yfirborð sjávar hækkar nú hraðar en fyrir rúmum tveimur áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×