Erlent

Meintir vinargreiðar reynast forsætisráðherra Japans fjötur um fót

Kjartan Kjartansson skrifar
Shinzo Abe er ekki upplitsdjarfur þessa dagana enda plaga hneykslismál ríkisstjórn hans.
Shinzo Abe er ekki upplitsdjarfur þessa dagana enda plaga hneykslismál ríkisstjórn hans. Vísir/AFP
Hneykslismál stefna nú pólitísku lífi Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, í hættu. Abe er sakaður um að gera rekstraraðilum skóla sem hann tengist greiða. Stuðningur við ríkisstjórn hans hefur hrapað.

Óvinsældir forsætisráðherrans og ríkisstjórnar hans draga verulega úr líkunum á að stjórnin haldi velli í kosningum sem fara fram á næsta ári, að því er kemur fram í frétt The Guardian.

Greiðar sem voru gerðir tveimur rekstraraðilum skóla hafa vakið tortryggni á meðal almennings í garð Abe. Fyrst fékk einn hópur ríkisland á vildarkjörum og síðar var greint frá því að háttsettur embættismaður frá skrifstofu forsætisráðherrans hefði komið nálægt því að gefa einkaháskóla leyfi til að reka dýralækningadeild.

Viðurkenndi Abe í yfirheyrslum í þinginu í vikunni að almenningu væri eðlilega tortryggin vegna þess að vinir hans kæmu við sögu í málunum. Hann er sagður ætla að stokka upp í ríkisstjórn sinni í næstu viku.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú aðeins 26% og hefur hann hrapað um tíu prósentustig tvo mánuði í röð. Stjórn Abe hefur ekki notið minni stuðnings frá því að hann sneri aftur í stól forsætisráðherra árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×