Erlent

Tíu þúsund manns þurft að flýja heimili sín

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Slökkvistarf var unnið á eyjunni Korsíku í gær.
Slökkvistarf var unnið á eyjunni Korsíku í gær. Vísir/AFP
Skógareldar geisa nú í suð-austurhluta Frakklands en tíu þúsund manns var gert að flýja heimili sín vegna eldanna í nótt.

Skógareldar hafa geisað undanfarna daga á eyjunni Korsíku og í bæjunum Carros og Saint-Tropez í Frakklandi. Veður í suðausturhluta landsins hefur verið óvenju heitt, þurrt og vindasamt undanfarnar vikur og því hefur reynst erfitt að ráða við eldana.

Í gær höfðu íbúar um hundrað heimila á svæðinu flúið híbýli sín að beiðni yfirvalda en mikill fjöldi hefur nú bæst í þann hóp.

Þá hafa fjölmargir slökkviliðsmenn verið kallaðir út til að reyna að ráða niðurlögum eldanna að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins. Frönsk yfirvöld hafa einnig beðið nágranna sína innan Evrópusambandsins að rétta sér hjálparhönd í baráttunni við skógareldana.

Um fjögur þúsund hektarar af landi hafa orðið eldunum að bráð. Að minnsta kosti tíu þúsund manns hafa nú flúið heimili sín í suð-austurhluta Frakklands, þar á meðal á hinni svokölluðu Frönsku rivíeru og á eyjunni Korsíku. Ástandið er þar að auki einna verst við bæinn Saint-Tropez.

Svæðið er gríðarlega vinsæll áfangastaður ferðamanna á sumrin en íbúafjöldi allt að þrefaldast á þessum árstíma, að sögn yfirvalda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×