Fótbolti

„FH er með þennan stóra Andy Carroll í framlínunni“ | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslandsmeistarar FH mæta færeysku meisturunum í Víkingi úr Götu í kvöld á Kaplakrikavelli klukkan 19.15 en þetta er fyrri leikur liðanna í 2. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar.

Færeyska liðið er á toppnum heima fyrir og hefur náð góðum úrslitum í Evrópukeppnum á undanförnum árum. Það gerði jafntefli í öðrum leik sínum gegn Rosenborg í fyrra og lagði Tromsö fyrir tveimur árum.

Markmiðið í kvöld er að halda markinu hreinu segir Atli Gregersen, fyrirliði Víkings og landsliðsmaður Færeyja. Leikstíll Færeyinganna mun ekki koma á óvart.

„Við munum reyna að skora því ég væri til í að skora á móti góðvini mínum Gunnari Nielsen. Það er erfitt að spá fyrir um þetta því fyrri leikurinn er bara fyrri hálfleikurinn í einvíginu,“ segir Atli.

„Við ætlum að reyna að vera þéttir og reyna að skora úr skyndisóknum. Það kemur auðvitað ekkert á óvart. Þetta verður erfitt en við hlökkum til að spila á móti liði frá frændþjóð okkar. Þetta verður vonandi góður leikur en menn munu láta finna fyrir sér held ég.“

Atli segist ekki vita mikið um FH-liðið en þekkir þó þeirra helstu menn. Hann líkir Kristjáni Flóka Finnbogasyni við enskan landsliðsframherja.

„Þeir eru auðvitað með stóra Andy Carroll frammi sem er mjög góður. Svo er FH með Atla Guðnason og Skotann Steven Lennon. FH er mjög gott lið sem erfitt er að finna veikleika á. Markvörðurinn er líka mjög góður,“ segir Atli.

„Þeir urðu meistarar í fyrra með góðum varnarleik en við einbeitum okkur ekki of mikið að þeim heldur að okkur. Við erum með góða leikmenn frammi sem geta vonandi skaðað FH. Það er erfitt að spá í þetta saman því ég hef ekki hugmynd um hverju ég á að búast við. Eina sem ég veit er að ég mun njóta leiksins,“ segir Atli Gregersen.

Viðtalið við Atla má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×