Innlent

Sumarblíða fyrir austan

Samúel Karl Ólason skrifar
Það stefnir allt í sumarblíðu fyrir austan í dag.
Það stefnir allt í sumarblíðu fyrir austan í dag. Vísir/GVA
Það stefnir allt í sumarblíðu fyrir austan í dag, þar sem hitinn getur náð allt að 18 stigum. Um landið vestanvert verður hins vegar þungbúið og jafnvel von á smáskúrum. Á morgun er von á suðaustan hvassviðri og má búast við stormi við suðvesturströndina og á hálendinu á morgun. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Talsverð rigning sunnan- og vestanlands mun fylgja rokinu á morgun en búist er við mun betra veðri norðaustanlands. Þar á að vera þurrt og bjart og hiti um og yfir 20 stig.

Veðurhorfur á landinu

Á þriðjudag:

Gengur í suðaustan 10-20 m/s, hvassast SV-til. Talsverð rigning, en þurrt að mestu á Norðaustur- og Austurlandi. Hægari vindur um kvöldið. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast NA-lands. 

Á miðvikudag:

Suðaustan 10-15 m/s, en talsvert hægari á V-verðu landinu. Rigning suðaustanlands, en annars skýjað og lengst af úrkomulítið. Hiti breytist lítið. 

Á fimmtudag og föstudag:

Suðaustlæg átt 5-13 m/s og rigning með köflum, en þurrt og bjart að mestu norðantil á landinu. Áfram fremur hlýtt í veðri. 

Á laugardag og sunnudag:

Útlit fyrir breytilega vindátt, skýjað með köflum og dálitlar skúrir. Fremur hlýtt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×