Erlent

Kúrdar segja Baghdadi á lífi

Samúel Karl Ólason skrifar
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins.
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins. Vísir
Æðsti yfirmaður öryggissveita Kúrda í Írak gegn hryðjuverkum segist 99 prósent viss um að Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins, sé enn á lífi. Samtökin Syrion Observatory for Human Rights héldu því fram í síðustu viku að þeir hefðu „staðfestar heimildir“ fyrir því að Baghdadi hefði verið felldur, en hann hefur margsinnis verið talinn látinn áður.

Í samtali við fréttaveituna Reuters segir Lahur Talabany hins vegar að Baghdadi sé lifandi og hann haldi til fyrir sunnan Raqqa í Sýrlandi.



„Hann er pottþétt lifandi. Hann er ekki dáinn. Við höfum upplýsingar um að hann sé lifandi. Við erum 99 prósent vissir,“ sagði Talabany og bætti við.

„Ekki gleyma því að hann hann rekur rætur sínar til al-Qaeda í Írak. Hann var að fela sig fyrir öryggissveitum og veit hvað hann er að gera.“

Talabany sagði einnig að hann óttaðist að þegar ISIS tapaði landsvæði sínu myndu samtökin hverfa aftur í skuggana og herja þaðan á heiminn af miklum krafti. Eins og þeir gerðu í Írak á árum áður.

Abu Bakr al-Baghdadi, eða Ibrahim Awad Ibrahim al-Badri al-Samarrai, stofnaði Íslamska ríkið í apríl 2013, en hann hafði þá leitt deild al-Qaeda í Írak frá árinu 2010. Eftir hernaðarsigra ISIS sumarið 2014 steig Baghdadi í pontu í Nour al-Din moskunni í Mosul og lýsti yfir stofnun kalífadæmis Íslamska ríkisins í Írak og Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×