Skoðun

Leikskólakennari eða bardagakappi

Fjóla Þorvaldsdóttir skrifar
Gunnar Nelson fékk þessa fínu ábendingu í lok bardagans í gærkvöldi, allavega trúi ég því að þulurinn hafi ekki ætlað sér að vera með fordóma. Þessi ábending er alveg frábær, kannski það besta sem gerðist í  útsendingunni í gærkvöldi. Gunnar Nelson gæti orðið góður leikskólakennari.

Gunnar Nelson er bardagakappi og býr yfir miklum hæfileikum sem slíkur, en ólíklegt má telja að sú atvinna henti til lengdar. Ég veit reyndar ekkert hversu lengi bardagafólk stundar þessa íþrótt, en sýnist á öllu að atvinnumenn í greininni séu ekki komnir á aldur svona yfirleitt.

Þessi hugmynd að Gunnar Nelson gerist leikskólakennari er því betri sem ég hugsa meira um hana. Til þess að verða góður í bardagaíþróttum þarf að búa yfir ákveðnu andlegu og líkamlegu atgerfi rétt eins og ef þú vilt verða leikskólakennari.   

Gunnar Nelson er sagður búa yfir afbragðs kostum sem bardagaíþróttamaður sem einnig prýða afbragðs leikskólakennara, geysilegan viljastyrk, útsjónarsemi, snerpu, mikinn sprengikraft, hugmyndaauðgi, mátulega kærulaus og spontant og ekki hvað síst þrautsegju.

Það er ég viss um að eitthvað sveitafélagið væri tilbúið til þess að styrkja Gunnar Nelson  til náms ef hann fengist til starfa í leikskólanum. Vegna þess að þegar Gunnar Nelson hefur lokið námi í leikskólakennarafræðum hefur hann ekki hvað síst mun betra fjárhagslegt öryggi en hann hefur í dag.

Því segi ég velkominn Gunnar Nelson í öflugan leikskólakennarahóp og takk þú, sem ég veit ekki hvað heitir, fyrir að benda honum á þetta.

Höfundur er varaformaður Félags leikskólakennara.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×