Erlent

Trump gerir lokatilraun til að ganga frá Obamacare

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur boðið öldungadeildarþingmönnum Repúblikanaflokksins til hádegisverðar í dag þar sem ræða á mögulegar aðgerðir varðandi heilbrigðis- og sjúkratrygginakerfi Bandaríkjanna. Flokkurinn virðist hafa gefist upp á að reyna að koma heilbrigðisfrumvarpi þeirra Trump og Mitch McConnell, sem gengið hefur undir nafninu Trumpcare, í gegnum þingið.

Einnig náðist ekki meirihluti á þinginu fyrir því að fella niður lögin eins og þau eru í dag. Trump lagði í gær til að það yrði gert svo hægt væri að byggja kerfið upp að nýju frá gruni.

Repúblikanaflokkurinn hefur ætlað sér að fella niður Obamacare og koma upp nýju kerfi í sjö ár. Þann tíma hefur það verið eitt af helstu baráttumálum flokksins, sem ætti nú að vera í kjörstöðu til þess. Flokkurinn stjórnar báðum deildum þingsins og forsetaembættinu.

Þrír öldungadeildarþingmenn flokksins hafa opinberað afstöðu sína og sagt að þeir muni ekki styðja frumvarpið. Repúblikanar á þinginu eru einungis 52 og var það því nóg. Þar að auki eru fleiri þingmenn sem eru sagðir vera á móti frumvarpinu, án þess að hafa gert það opinbert.

Samkvæmt AP fréttaveitunni ætlaði McConnell að halda atkvæðagreiðslu um Trumpcare í dag, til þess að þvinga þingmenn flokksins til að opinbera afstöðu sína. Þingmenn flokkksins báðu hann þó um að bíða með slíkar aðgerðir, en frumvarpið er gífurlega óvinsælt á landsvísu og gæti það reynst þingmönnum dýrkeypt að greiða því atkvæði sitt.

McConnell tilkynnti svo í gær að atkvæðagreiðslan færi fram í næstu viku og sagði að henni hefði verið frestað, meðal annars, að beiðni forsetans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×