Bílar

Fer Renault-Nissan fram úr sölu Volkswagen og Toyota í ár?

Finnur Thorlacius skrifar
Nissan Qashqai er einn vel heppnaðara bíla Renault-Nissan bílasamstæðunnar.
Nissan Qashqai er einn vel heppnaðara bíla Renault-Nissan bílasamstæðunnar.
Ekki munar ýkja miklu á heildarsölu Renault-Nissan og Volkswagen Group og Toyota. Hafa verður þó í huga að við sölu Nissan og Renault bíla hefur bæst við Mitsubishi, en Renault-Nissan keypti Mitsubishi síðastliðið haust. Á fyrstu 4 mánuðum ársins seldi Volkswagen 3,32 milljón bíla, Toyota 3,06 og Renault-Nissan 3,02.

Það munar því ekki nema um 300.000 bílum á Renault-Nissan og stærsta bílaframleiðanda heims, Volkswagen. Vöxtur Renault-Nissan í sölu er hinsvegar nokkru meiri en hjá bæði Volkswagen og Toyota og forstjóri Renault-Nissan, Carlos Ghosn sagði um daginn að það væri ekki loku skotið fyrir það að Renault-Nissan gæti skotist upp fyrir bæði fyrirtækin í sölu áður en árið er á enda.

GM fallið í 4. sætið

Renault-Nissan hefur skotið General Motors fyrir neðan sig í sölu á þessu ári en General Motors hefur fallið hratt niður listann á meðal stærstu bílaframleiðenda heims, en vermdi fyrir ekki svo löngu efsta sætið. Nú er hinvegar GM fallið niður í 4. sætið og gerði það fyrst í janúar, en þá fór Renault-Nissan yfir GM í sölu og hefur æ síðan selt meira en GM í hverjum mánuði.

Carlos Ghosn lét hafa það eftir sér um daginn að hann byggist við að við mitt ár í ár væri Renault-Nissan farið að selja jafnvel fleiri bíla á hverjum mánuði en bæði Volkswagen Group og Toyota, en hvort það dugi til þess að fara yfir þau bæði í heidarsölunni í ár mun tíminn bara leiða í ljós.

Mitsubishi nú innan bílafjölskyldunnar

Renault-Nissan, ásamt nú Mitsubishi, hefur aukið sölu sína um 8% á fyrstu 4 mánuðum ársins á meðan Toyota hefur aukið söluna um 6% og hjá Volkswagen Group hefur salan minnkað um 1%. Forvitnilegt er að sjá að Infinity, lúxusarmur Nissan, hefur aukið söluna mest innan þessarar stóru bílafjölskyldu, eða um 24%.

Renault hefur aukið söluna um 10% og Nissan og Dacia, sem er í eigu Renault, hafa bæði aukið söluna um 7%. Á meðan hefur bæði Mitsubishi og Lada, sem einnig er í eigu Renault-Nissan, aukið söluna um 5%. Renault-Nissan er með stærstu markaðshlutdeild allra bílaframleiðenda í sölu jeppa og jepplinga og er með 12% hlutdeild þar á heimsvísu. Þar eiga Nissan Quasqai, Nissan X-Trail, Dacia Duster og Renault Kwid stóran þátt í velgengninni. 






×