Innlent

Ekkert gengið hjá Simma og Jóa að fá konur í hamborgarana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jóhannes Ásbjörnsson og Sigmar Vilhjálmsson eru tveir eigenda Hamborgarafabrikkunnar, sem notið hefur mikilla vinsælda meðal landsmanna. Þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að heiðra nær aðeins karlmenn á matseðli sínum. Myndin er samsett.
Jóhannes Ásbjörnsson og Sigmar Vilhjálmsson eru tveir eigenda Hamborgarafabrikkunnar, sem notið hefur mikilla vinsælda meðal landsmanna. Þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að heiðra nær aðeins karlmenn á matseðli sínum. Myndin er samsett. Vísir
Veitingastaðurinn Hamborgarafabrikkan hefur sætt nokkurri gagnrýni í vikunni vegna nafngifta á hamborgurum staðarins. Á matseðli Fabrikkunnar eru að minnsta kosti sex hamborgarar sem vísa beint í nafngreinda, íslenska karlmenn en aðeins einn, kjúklingaborgari með jógúrtsósu, sem vísar í konu.

Fyrirtækið hefur verið gagnrýnt fyrir að líta fram hjá stórum hópi íslenskra kvenna sem hægt væri að heiðra með þessum hætti. Einn eigenda Fabrikkunnar segir nafnavalið ekki byggt á kynjamisrétti heldur séu karlarnir sjálfir duglegri að stofna til samstarfs með fyrirtækinu.

Sylvía Hall útskrifaðist úr Verzló í vor.Sylvía Hall
Furðar sig á því að eina birtingarmyndin sé „einhver létt og holl fegurðardrottning“

Sylvía Hall, nýstúdent frá Verzlunarskóla Íslands og fyrrverandi formaður femínistafélags skólans, vakti athygli á matseðli Fabrikkunnar í vikunni. Hún sagði það til marks um kynjamisrétti að eini hamborgarinn sem nefndur er í höfuðið á konu á matseðlinum væri „fegurðardrottning í speltbrauði með kjúlla.“

Sylvía starfaði sjálf hjá Hamborgarafabrikkunni um nokkur skeið fyrir tveimur árum síðan og segir oft hafa rætt kynjahallann á matseðlinum við þáverandi samstarfsmann sinn. Sá hafði áður borið þetta undir eigendur fyrirtækisins en ekkert hafi enn gerst í þeim efnum, mörgum árum síðar.

„Maður sá krakka koma og borða þarna og þeim fannst ótrúlega nett að nöfnin á borgurunum væru tengd þekktum tónlistarmönnum. En svo var eini kvenkyns borgarinn einhver létt og holl fegurðardrottning," segir Sylvía í samtali við Vísi. Hún furðar sig á því að hinn stóri hópur hæfileikaríkra, íslenskra kvenna sé ekki nýttur betur.

„Það er skrýtið að í þessu markaðstækifæri, að heiðra Íslendinga sem hafa staðið sig vel, að það sé ekkert pláss fyrir konur í því. Við erum með heimsmeistara í cross-fit, geggjað fótboltalandslið og geggjaðar listakonur. Af hverju eru þær ekki nýttar?“

Sigmar Vilhjálmsson er einn eigenda Hamborgarafabrikkunnar.Vísir/Stefán
Kvennalandsliðið vænlegur kostur nái þær góðum árangri í ár

Sigmar Vilhjálmsson, einn eigenda Hamborgarafabrikkunnar, segir í samtali við Vísi að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hann velti þessari gagnrýni fyrir sér. Nafngiftir á hamborgurum komi reglulega upp innan fyrirtækisins og að nöfn margra íslenskra kvenna hafi borið á góma í því samhengi.

„Við höfum velt því fyrir okkur hvaða konur væru flottir hamborgarar en við reynum ekki mikið að fara í samtímafólk, svo að það sé sagt,“ segir Sigmar.

Það vekur þó athygli að fjórir hamborgarar á matseðli Fabrikkunnar, Morthens, Stóri BÓ, Fyrirliðinn og Il Maestro, bera nöfn sem eru bein tilvísun í menn sem eru á lífi og áberandi í íslensku samfélagi. Þá er Herra Rokk vísun í tónlistarmanninn Rúnar Júlíusson og Hemminn heitir eftir skemmtikraftinum Hermanni Gunnarssyni en þeir eru báðir látnir.

Sigmar nefnir Fyrirliðann, nýjustu viðbótina á matseðli Hamborgarafabrikkunnar, sérstaklega. Hamborgarinn heitir í höfuðið á Aroni Einari Gunnarssyni, fyrirliða íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

„Arons-borgarinn kemur til í kjölfar þess að Ísland náði frábærum árangri í fyrra og við myndum án efa vilja horfa til þess ef stelpurnar ná miklu afreki núna á EM, þá myndum við klárlega vilja búa eitthvað til með þeim á næsta ári. Það tekur nefnilega alveg ár að búa til nýjan hamborgara.“

Karlarnir koma með uppskriftirnar

Sigmar segir fyrirtækið jafnframt hafa það til hliðsjónar, þegar kemur að nafngiftum á hamborgurum, að uppskriftirnar komi frá mönnunum sjálfum.

„Uppskriftin að Stóra BÓ kom frá Björgvini Halldórssyni, uppskriftin frá Hemma kom frá Hemma og uppskriftin frá Aroni kom frá Aroni, þannig að þetta er ekki eins og við séum að setja saman hamborgara og gefa honum nafn heldur eru þetta hamborgaraáhugamenn sem eiga sér sinn uppáhalds hamborgara, sem þeir deila með okkur,“ segir Sigmar. 

„Ef við værum að fá margar tillögur frá konum að hamborgurum þá myndum við án efa skíra í höfuðið á þeim.“

En hafa karlarnir þá leitað til Fabrikkunnar að fyrra bragði með hugmyndir sínar að hamborgarauppskriftum?

„Ja, þetta hefur bara verið svona samtal milli manna um borgara,“ segir Sigmar og bætir við að á Íslandi séu auðvitað margar merkilegar konur, með hverjum þau hjá Fabrikkunni gætu hugsað sér að hefja samstarf. 

„Það er þó ekkert hlaupið að því að finna þær, því þessar konur þurfa að vilja búa til hamborgara.“

Vigdísar-borgarinn vonandi á leiðinni

Gagnrýnendur Hamborgarafabrikkunnar beindu sérsaklega spjótum sínum að eina hamborgaranum sem kenndur er við konu, „Ungfrú Reykjavík“, kjúklingaborgara með jógúrtsósu. Sigmar segir þá nafngift ekki byggjast á staðalímyndum um konur og mat og hafnar því jafnframt að nafngiftirnar tengist kynjamisrétti.

Hann segir Hamborgarafabrikkuna hafa viljað fá ákveðnar konur í samstarf en margar þeirra séu með samninga við aðra matsölustaði og hafi því hugmyndirnar ekki náð lengra. Hann segir enn fremur enga konu hafa komið að fyrra bragði til fyrirtækisins í von um samstarf.

Þá segir Sigmar að Fabrikkan sé byrjuð að vinna að nýjum hamborgara, svokölluðum „Hamborgara þjóðarinnar,“ sem hann vonast til að geta nefnt í höfuðið á Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.

„Hún er svona fulltrúi þjóðarinnar, að okkur finnst. Það á hins vegar eftir að bera þetta undir hana og fá samþykki fyrir því.“

Uppfært klukkan 14:36: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var fullyrt að Fabrikkan hefði átt í samningaviðræðum við Hafþór Júlíus Björnsson kraftajötunn en slitið þeim. Það er ekki rétt og hefur því verið tekið úr fréttinni. Fabrikkan hefur aldrei átt í viðræðum við Hafþór. Er beðist velvirðingar á þessu.

Uppfært klukkan 14:48: Einnig kom fram að rætt hefði verið við Sölku Sól Eyfeld og Hrefnu Sætran um samstarf við Fabrikkuna. Sigmar minntist hins vegar aðeins á þær á almennum nótum í samtali við blaðamann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×