Lífið

Sumarspá Siggu Kling - Vogin: Þarft að hefja einhvers konar uppgjör

Elsku Vogin mín, það er mjög mikil spenna í loftinu og ef þú notar hana rétt þá mun hún breytast í orku. Þú vinnur allra best undir pressu svo vertu ánægð og þakklát fyrir pressuna. Það verða mörg „wake up calls“ í kringum þig og þú finnur kraftinn koma, en þú þarft reyndar að ganga frá málum sem tengjast fólkinu í kringum þig fyrst. Það virðist vera sem þú þurfir að hefja einhvers konar uppgjör, illu er best af lokið. Kláraðu það sem þér finnst leiðinlegt því þá mun það að minnsta kosti ekki flækjast fyrir þér meira.

Þú átt það til að vita ekki alveg hvernig þér á að líða, og þú spyrð þig gjarnan: „er ég ástfangin, er ég hamingjusöm í vinnunni, í lífinu?“ Þú ættir að skoða hvaða fjóra kosti þeir hafa sem þú elskar og hugsa frekar um þá en lestina þeirra. Það sama á við um vinnunna, skólann eða hvað sem er í þínu lífi. Hins vegar, ef reiðin fyllir þig og þú sérð bara svart þá getur þú hvorki losað þig út úr neinu né tekið skynsamlegar ákvarðanir. Þannig að slepptu reiðinni.

Það er mjög margt fram undan, svo ekki vera hrædd um að þú klárir ekki allt á hárréttum tíma. Þetta eru sterkustu skilaboðin í þessari spá: flæðið í kringum þig verður til þess að allt mun gerast á hárréttum tíma.

Þitt ógnarstóra hjarta getur valdið þér miklum erfiðleikum því þú tekur inn á þig ástandið í heiminum og hvernig öðrum líður. En þú verður að læra að þetta er eitthvað sem þú getur ekki tekið inn í daginn þinn, þú getur alls ekki breytt þessu eða öðrum. Það eina sem þú getur breytt er sjálfri þér. Og mundu, það er alls ekki vandamálið sem drepur þig, heldur tilfinningarnar sem þú finnur fyrir vegna vandamálsins.

Þetta verður algjörlega sumarið þitt á meðan þú lætur ekki utanaðkomandi vitleysu bíta þig í hælinn. Hlutirnir eru að gerast með miklum krafti og ef þú lítur í kringum þig er þó nokkuð miklu meiri bjartsýni í þessu sumri heldur en því síðasta.

Gefðu þér því tíma til að fagna og eftir því sem þú fagnar meira færðu meiri fegurð inn í lífið. Í útgeislun ertu með svipaðan ljóma og Amor, ástarengillinn sjálfur. Svo þú skalt hugsa um það sem þú vilt og skrifa það svo niður, því þá stimplast óskirnar betur inn í orkuna þína. Og skoðaðu vel það sem þú skrifar niður, því þá skilur þú miklu betur hvað það er sem þú óskar þér.

Mottó: Verði þinn vilji ef þú veist svo sannarlega hvað þú vilt.

Frægir í Voginni: Kári Árnason landsliðsmaður, Glúmur Baldvinsson stjórnmálafræðingur, Hjalti flugþjónn, Ingi í Sign, Jón Axel Ólafsson athafnamaður, Matt Damon leikari, Íris Berg, fatahönnuðurinn minn, Mary Poppins, Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og sjónvarpskona, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir alþingiskona, Ósk Gunnarsdóttir útvarpskona, María Einarsdóttir ritari stjörnuspánnar, Arnþrúður Karlsdóttir útvarp Saga, Skúli Mogensen, Hulda Hólmkelsdóttir fréttakona, Walter Matthau, Olavia Newton John, Ragga Gísla, Steinn Steinarr, Margret Thatcher, Ragnheiður Elín Árnadóttir, minn meistari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×