Erlent

Trump kynnir nýja ferða­bannstil­skipun í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti mun í dag skrifa undir nýja forsetatilskipun sem er ætlað að koma í stað ferðabannstilskipunarinnar sem bandarískir dómstólar felldu úr gildi í síðasta mánuði.

Fyrri tilskipun bannaði ríkisborgurum frá Írak, Sýrlandi, Súdan, Íran, Sómalíu, Líbíu og Jemen að ferðast til Bandaríkjanna næstu níutíu dagana.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því morgun að stærsta breytingin með nýju tilskipuninni sé að hún nái ekki til írakskra ríkisborgara og fari vægari höndum um ríkisborgara þeirra ríkja sem tilskipunin nær til og hafa þegar fengið samþykkta vegabréfsáritun og öðlast atvinnuréttindi í landinu.

Aðalráðgjafi Trump, Steve Bannon, Jared Kushner, tengdasonur Trump, og starfsmenn í bandaríska dómsmálaráðuneytinu hafa unnið saman að því síðustu daga að fínpússa tilskipunina.

Fyrri tilskipun kom í veg fyrir að flóttamenn gætu sótt um hæli í Bandaríkjunum næstu 120 daga. Þá yrðu öllum sýrlenskum flóttamönnum meinuð innganga ótímabundið.

Tilskipunin olli mikilli ringulreið á flugvöllum víða um heim og var henni harðlega mótmælt. Alríkisdómari dæmdi síðar að tilskipunin stríddi gegn stjórnarskrá landsins. Trump sagðist þá ætla að fara með málið alla leið til hæstaréttar landsins, en hætti að lokum við og sagðist ætla að skrifa undir breytta tilskipun.

Uppfært 14:50:

Kellyanne Conway, ráðgjafi Trump, segir í samtali við Fox News að Trump muni skrifa undir tilskipunina síðar í dag. Bannið muni taka gildi 16. mars næstkomandi.


Tengdar fréttir

FBI hafnar ásökunum Trump um hleranir

Yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar hafnar ásökunum Donalds Trump Bandaríkjaforseta að Barack Obama, forveri hans í starfi, hafi fyrirskipað að símar Trump skyldu hleraðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×