Glamour

Mér finnst og þess vegna er ég

Hallgerður Hallgrímsdóttir skrifar
Hallgerður Hallgrímsdóttir
Hallgerður Hallgrímsdóttir
Kannski er það vegna þess að við erum öll bara Íslendingar og höfum þangað til nýlega verið með einsleitari þjóðum. Sumir eru raunar ekki enn farnir að skilja að Íslendingur geti verið þeldökkur og að þrátt fyrir ljúf loforð um borð í Icelandair-vélunum geti ekki allir Íslendingar rekið rætur sínar aftur til landnámsfólks. Og ef við gerðum það, værum við ekki bara öll Norðmenn?

En það er efni í annan pistil. Hér ætla ég að halda því fram að um aldir höfum við lítið skilgreint okkur eftir trúarbrögðum, húðlit eða menningarmun. Því höfum við gripið til þess ráðs að skilgreina okkur með skoðunum. Þannig er hluti af minni sjálfsmynd að taka Brynjuís fram yfir annan, þola ekki U2 og vera með listamannalaunum en á móti kvótakerfinu. Ég hef líka reglulega velt fyrir mér hvort ég þurfi ekki að fara að velja mér lið til að halda með í enska, nú eða bara íslenska. Svarið er auðvitað að ég veit ekki einu sinni í hvaða liði sætustu strákarnir eru.

Barnahatararnir

Hversu oft hafið þið heyrt einhver segja að hann hafi bara enga skoðun á flugvellinum? Hve oft hafið þið heyrt einhvern segja að hann sé bara ekki búinn að kynna sér málið nóg til að hafa skoðun? Og ætli kannski aldrei að gera það. Ókei, kannski rífast aðrar þjóðir alveg jafnmikið um ísbúðir og samgöngur og við en Íslendingar hljóta að eiga heimsmet í með eða á móti eins og öllu öðru. Við erum jafnvel verri en þjóðin sem færði okkur „You're either with us, or against us.“ Ef þú ert á móti álverum, ertu á móti landsbyggðinni. Þú getur ekki verið femínisti í Framsókn. Þú getur ekki hatað Reykjavíkurflugvöll og elskað börn. Þú getur ekki lagt fæð á búvörusamninginn og dýrkað lömb, bæði til að knúsa og snæða.

Skipt um skoðun

Það má ekki! Með að skipta um skoðun er maður í raun að viðurkenna að maður hafi haft rangt fyrir sér og þá um leið að maður sé fáviti. En forsendur breytast, nei fyrirgefið, ég gleymdi að nota tískuorðið forsendubrest. Heimurinn breytist. Það er erfitt að sjá The Cosby Show sömu augum og í denn, það er ósanngjarnt að dæma kunningja fyrir að hafa verið leiðinlegur þegar hann var 16, nú hálfu lífinu síðar og við hefðum örugglega átt að vera löngu byrjuð að byggja þennan flugvöll. Nei, bíddu...

Við erum samt að læra. Hópar fólks stíga nú fram og játa að þeir hafi skipt um skoðun. Hin nýja skoðun felur svo jafnvel í sér að vera alveg sama. Sem er kannski eins gott. Því ég er að minnsta kosti ekkert mjög spennt fyrir því að verða spurð á elliheimilinu hvernig ég kaus í Icesave.

Játning

Því vil ég nú stíga fram og ekki bara taka ofan fyrir þeim sem eru að gerast femínistar áratugum eftir fæðingu, þeim sem segja sig úr flokknum og prófa nýjar ísbúðir heldur segja hér svart á hvítu: Umbreytum 101 Reykjavík í spítala, mér er alveg sama, fáum bara nýjan spítala. Mér finnst Pipp ekki sérstaklega gott lengur og eiginlega bara ekkert íslenskt súkkulaði sem var til í æsku minni. Ég kaus ekki í Icesave og hef alltaf sagt að það hafi verið vegna þess að ég bjó erlendis og það var eitthvað svo flókið. Ég athugaði aldrei einu sinni hvernig maður kysi. Ég kaus ekki vegna þess að ég skildi þetta bara ekki. Og ég mun eflaust ekki skilja þetta neitt frekar á elliheimilinu.

Hallgerður Hallgrímsdóttir er fastur pistlahöfundur í Glamour en þessi pistill er úr júníblaðinu. Hún er verkefnastjóri og mynd­listarmaður og hefur sýnt ljósmyndir sínar víða um heim. Hún býr og starfar í Reykjavík en flýr reglulega út á land eða úr landi, oftast með fleiri en eina myndavél um hálsinn.






×