Innlent

Frávísun Persónuverndar ekki í samræmi við lög

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tryggvi Gunnarsson er umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson er umboðsmaður Alþingis. vísir/vilhelm
Frávísun Persónuverndar á máli móður sem kvartaði til stofnunarinnar vegna myndbirtingar barnsföður hennar af dóttur þeirra á Facebook-síðu hans var ekki í samræmi við lög. Þetta er álit umboðsmanns Alþingis sem birt var á vef hans í dag.

Þar kemur fram að myndbirting föðurins af dótturinni hafi verið gegn vilja dótturinnar en frávísun Persónuverndar var byggð á þeirri forsendu að nauðsynlegt væri að kvörtunin kæmi frá stúlkunni sjálfri en ekki móður hennar.

Stúlkan var fjórtán ára gömul þegar kvörtunin barst Persónuvernd. Taldi umboðsmaður að með hliðsjón af eðli málsins og aldri stúlkunnar að frávísun Persónuverndar án þess að leitast væri við að fá fram afstöðu dótturinnar sjálfrar til málsins „hefði verið í andstöðu við ákvæði barnalaga og samnings Sameinuðu þjóðanna, sem fjalla um rétt barns til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif, og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.“

Af þessum sökum hefði frávísun málsins ekki verið í samræmi við lög.

Eftir að kvörtun móðurinnar var vísað frá lagði dóttirin sjálf fram kvörtun í eigin nafni. Tók Persónuvernd þá kvörtun til meðferðar. Svo segir í áliti umboðsmanns:

„Umboðsmaður tók fram að kvörtun A varðaði myndbirtingu af dóttur hennar og lyti því að sérstökum lögvörðum hagsmunum dótturinnar. Dóttirin hefði því haft stöðu aðila máls í því tilviki sem um ræddi þó svo að kvörtunin hefði verið borin fram af A sem forsjárforeldri og fyrirsvarsmanni dótturinnar. Það að mál barns eða ungmennis væri komið til kasta stjórnvalds fyrir frumkvæði forsjáraðila þess sem færi þá með aðilafyrirsvar við meðferð málsins kæmi ekki í veg fyrir að leitað væri eftir afstöðu viðkomandi barns eða ungmennis. Þvert á móti leiddi af lögum að stjórnvaldið þyrfti sjálft að hafa frumkvæði að því að leita eftir viðhorfi þess til málsins lægi það ekki þegar fyrir með óyggjandi hætti í gögnum málsins.

Eftir að kvörtun A var vísað frá lagði dóttir hennar fram kvörtun í eigin nafni. Umboðsmaður taldi að frávísun á máli A, þar sem alveg sömu efnisatriði voru til umfjöllunar, án þess að þau hlytu þar efnislega umfjöllun hefði orðið til þess að málið hefði tekið lengri tíma en það ella hefði þurft að gera. Það taldi hann aðfinnsluvert með málshraðareglu stjórnsýslulaga í huga.

Að öllu framanröktu virtu taldi umboðsmaður að frávísun Persónuvernd á kvörtun A á þeirri forsendu að nauðsynlegt væri að kvörtunin kæmi fram frá dóttur hennar hefði ekki verið í samræmi við lög. Hann beindi þeim tilmælum til Persónuverndar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.“

Nánar má lesa um málið hér og hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×