Fótbolti

Antonio Cassano segir að eiginkonan hafi bara verið að bulla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Cassano.
Antonio Cassano. Vísir/Getty
Antonio Cassano er búinn að leggja fótboltaskóna upp á hillu. Er það hans lokaákvörðun? Við höldum það í bili að minnsta kosti. Ítalski framherjinn segir svo vera en hann hefur reyndar hætt við einu sinni í þessari viku.

Antonio Cassano tilkynnti í gær að hann væri hættur í fótbolta en þetta var önnur slík yfirlýsing hans á innan við viku. Í byrjun júlí þá gerði hann samning við nýliða Hellas Verona en nú lítur út fyrir að hann spili aldrei fyrir félagið.

Þegar fréttir bárust af því að Cassano væri aftur búinn að setja skóna upp á hillu í gær höfðu ítalskir fjölmiðlar það eftir eiginkonu hans að kappinn væri í raun að leita að öðru félagi.

Nú hefur Cassano komið fram og leiðrétt þann misskilning. Eiginkonan Carolina Marcialis var bara að bulla þegar hún skrifaði inn á samfélagsmiðla að karlinn hennar væri ekki hættur í boltanum.

„Þvert á það sem kom fram á samfélagsmiðli konu minnar þá vil ég nú koma fram til að koma mínum málum á hreint. Carolina hafði ekki rétt fyrir sér. Eftir að hafa hugsað vel um mína framtíð þá hef ég tekið endanlega ákvörðun. Antonio Cassano mun ekki spila fótbolta aftur,“ sagði Antonio Cassano í yfirlýsingu sinni.

Antonio Cassano tókst því í sömu yfirlýsingu að tala um sig í þriðju persónu og kenna konunni um fölsku fréttir gærdagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×