Enski boltinn

"Markaþurrðin hafði áhrif á hann“

Dagur Lárusson skrifar
Lacazette fagnaði innilega eftir markið sitt í gær.
Lacazette fagnaði innilega eftir markið sitt í gær. vísir/getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segist vera ánægður fyrir hönd Alexandre Lacazette sem skoraði sitt fyrsta mark síðan í byrjun desember gegn Crystal Palace í gær.

Síðasta mark Lacazette kom í 3-1 tapi gegn Manchester United þann 2.desember og segir Wenger að markaþurrðin hafi verið byrjuð að hafa áhrif á framherjann.

„Þetta var byrjað að hafa áhrif á hann, hann hugsaði of mikið um þetta, og þess vegna er þetta mikill léttir fyrir hann,“ en þetta var níunda mark Lacazette í deildinni í vetur.

Wenger var sáttur með spilamennsku síns liðs gegn Crystal Palace en Arsenal var búið að skora fjögur mörk áður en hálftími var liðinn af leiknum.

„Palace er búið að ganga vel upp á síðkastið og eru aðeins búnir að tapa tvisvar sinnum í síðustu tólf leikjum sínum, bæði skiptin gegn okkur.“

„Ég var mjög ánægður með hraðann í okkar spili. Þeir gáfu okkur minna pláss í seinni hálfleiknum og þeir gáfust ekki upp og þess vegna verður maður að hrósa þeim fyrir það. Þeir voru skipulagðir í seinni hálfleiknum og hraðinn var ef til vill farinn úr okkar leik.“

Arsenal situr í 6.sæti deildarinnar með 42 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×